Wednesday, July 28, 2010

Algengir kvillar og önnur ómerkilegheit.

Frá því að ég skrifaði síðast hef ég lent í fjórum líkamsárásum. Fyrst voru það moskítóflugur, svo könguló, því næst mý og nú síðast helvítis fokking flær. Fyrr í dag brunaði ég á Læknavaktina útötuð í einkennum banvæns en jafnframt sjaldgæfs sjúkdóms. Þaðan brunaði ég svo tvöþúsundogsexhundruð krónum fátækari með flóabit en heil heilsu að öðru leyti. Drasl.
Mér finnst stundum svo ergilegt þegar ég fer til læknis með stórkostlegan sjúkdóm og lufsast þaðan út með Íbúfentöflur og ómerkilegan krankleika, t.d. vöðvabólgu eða eins og í dag: moðerfokking flóabit. Þær hafa verið duglegar að háma og gleypa blessaðar. Húðin á mér er bólgin og alsett rauðum flekkjum og hæðum. ,, Flóabit er mitt faglega álit" tilkynnti læknirinn þegar ég kepptist við að veiða upp úr honum nafnið á holdssýkinni sem hrjáði mig. Svo reyndi ég að grínast og spurði hvort það væri ekki þreytandi að vera læknir eftir að internetið kom til sögunnar og fólk fór að hamast við að sjúkdómsgreina sjálft sig. Hann gaf lítið út að það, sagði að stundum væri það ágætt. Spennandi eða þannig.
Ég get ekki ímyndað mér hvernig ég á eftir að hegða mér þegar..öh, ég meina ég get ekki ímyndað mér hvernig ég myndi hegða mér ef að alvöru sjúkdómur berði að dyrum.