Sunday, May 23, 2010

Nú fékk ég móral yfir því hvað ég hef verið löt til bloggsins undanfarið. Bloggmórall heitir það.
Nema hvað... sólin, ó sólin, hún skín eins og enginn sé morgundagurinn og fallegt það er. Tómataplantan vex og dafnar en engir eru þó tómatarnir. Svo fengum við póstkort í gær. Eins og áður sagði einhverstaðar í öðru bloggi á öðrum tíma í öðrum heimi eru póstkort stuð.

Mamma mín situr og spilar á falska píanóið mitt, sonurinn og makinn borða eggjabrauð með sírópi í eldhúsinu, dóttirin undirbýr sig fyrir hjólreiðatúr, kötturinn er úti að leika sér í pólverjagarðinum með háa grasinu og ég, hún litla sumarklædda ég, sit með tölvu í fangi og opnaði hana nú reyndar ekki til að skrifa heldur bara til að tékka opnunartíma sundlauga því að í dag er hvítasunna. Hvítsólardagur. Ekki veit ég hvað átti að hafa gerst á honum... hú kers.
Ég er þunnur gaur. Gaur! Við makinn fórum nebbla í gær í leiðangur að kanna skemmtistaðamarkaðinn. Fullt af stöðum, það vantar ekki. Helmingurinn af þeim tómur og hinn helmingurinn fullur af fólki með mjööööög skrýtinn smekk á skemmtistöðum. Hvaða uppa-þjóð heldur þetta að hún sé eiginlega? Af hverju eru svona margir svona eins? Ég get stundum alveg látist.
En núna er ég semsagt þunn og hef ekki hugmyndaflug í meira en að reyna að þrauka hjólreiðatúr í góða veðrinu, brosa framaní börnin og blómin og éta læri heima hjá mor og far í kveld.
Kveld.
Maja

Thursday, May 20, 2010

Hálfvitar

Sumir dagar geta ómögulega liðið hjá án þess að einhver eða eitthvað minnir mig á að heimurinn er rækilega skiptur í Kvennaliðið og Karlaliðið. Sjálf hef ég gerst sek um að skipta heiminum í tvennt en ég kýs að flokka fólk í a)Hálfvita og b)Ekki Hálfvita. Fólk sem skiptir öllu í Karla- og Kvenna- flokkast undir lið a.

Sunday, May 16, 2010

Den Hark.

Ég er stödd á bensínstöð rétt fyrir utan Den Haag. Gærkvöldið reyndist martraðakennt.
Óskipulagðasta tónlistarhátíð í Evrópu er yfirstaðin guði sé lof og náð og blessun. Við komumst með herkjum í gegnum hálftíma tónleika. Fátt gekk upp. Hljóðmaðurinn vissi ekkert í sinn krullaða freðhaus. Fyrstu fimm mínúturnar virkuðu míkrófónarnir ekki og næstu tuttugu og fimm mínúturnar voru höktandi undarlegheit tæknilegra örðugleika. Ég bað guð tækni og vísinda um að hjálpa okkur. Áhorfendurnir voru vingjarnlegir og þolinmóðir. Enn og aftur afsannaðist ,, fólk er fífl" kenningin mín.

Á martraðaskalanum vógu þessir tónleikar þungt en tókst þó ekki að sökkva atburði sem átti sér nokkru áður.
Stuttu fyrir tónleikana fór ég á klósettið. Þegar ég var í þann mund að munda klósettpappírinn tók ég eftir að önnur hliðin á risastórri iðnaðarklósettrúllunni var alsett litlum rauðbrúnum slettum. Nánari skoðun leiddi í ljós að þetta voru blóðblettir af mismunandi stærðum. Skyndilega þyrmdi yfir mig og flökkusagan um sprautudópista sem þurrka nálarnar í einmitt svona rúllur laust í höfuð mér sem vítiselding. Lifrarbólgan seytlaði um æðar mér, alnæmið fór sem eldur í sinu. Skelfd arkaði ég út af klósettinu og stóð sjálfa mig að því að gruna veiklulegan mann sem hímdi á stól í eyðilegu baksviðsherberginu. Hann sagðist þekkja Daniel Johnston. ,, Whorever" hugsaði ég ,, ..bráðum mun ég deyja."

Friday, May 7, 2010

Nú bara verð ég að klára þessa törn mína. Svo hætti ég vegna þess að ég hef ekki fleiri verkefni til að fara yfir á næstunni og ég mun blessunarlega vera að mestu leyti laus við unglinga og þeirra bulllensku fram á sumarlok.
En semsagt, hér kemur afraksturinn af lestri um 23ja stuttra verkefna:

Mér finnst gott að fá áminningar á þessa slæmu hluti.
Eftir stríð var ráðið hóp sérmanna.
Það var ákveðið að kaupa ekki nema það væri skráð uppruna þeirra.
...vægt til orða sagt!...
Krakkarnir eru úthlutaðir hver með sína myndavél.
...þarna er hjálpað þeim.
Hann hafði hlekkt strákinn við ofn og líka binnt hann.
Hann var næstum til ólífs!
Þegar ungar konur verða óléttar þá koma þessi samtök mjög vel fyrir hendi.
...maður gerir sig grein fyrir....

muahahahaha......

og búið.

Wednesday, May 5, 2010

Nokkrar góðar í viðbót á meðan ég er of aum í kjaftinum til að skrifa...hehe... eins og ég skrifi eitthvað með munninum...hahaha.... þarna gabbaði ég þig!
Þessa dagana dunda ég mér sveitt og glöð við yfirferð verkefna og prófa og þegar ég rekst á skemmtilegt stöff skrifa ég það hjá mér samviskusamlega. Demantarnir eru í massavís.
Þessi síða er ekki auðvelt að aðgangast, en Youtube klikkar seint sem aldrei. Gaurinn þurfti nýtt vegabréf útaf því að það var stolið hinu og svo dó hann úr sorgmæddi. Þessar setningar voru ekki skrifaðar í skildleikatíð.
Þarna blandaði ég t.d. saman fimm gullkornum í brjálað stuð.
Hvað er annars að frétta af fólki á túr?