Sunday, May 16, 2010

Den Hark.

Ég er stödd á bensínstöð rétt fyrir utan Den Haag. Gærkvöldið reyndist martraðakennt.
Óskipulagðasta tónlistarhátíð í Evrópu er yfirstaðin guði sé lof og náð og blessun. Við komumst með herkjum í gegnum hálftíma tónleika. Fátt gekk upp. Hljóðmaðurinn vissi ekkert í sinn krullaða freðhaus. Fyrstu fimm mínúturnar virkuðu míkrófónarnir ekki og næstu tuttugu og fimm mínúturnar voru höktandi undarlegheit tæknilegra örðugleika. Ég bað guð tækni og vísinda um að hjálpa okkur. Áhorfendurnir voru vingjarnlegir og þolinmóðir. Enn og aftur afsannaðist ,, fólk er fífl" kenningin mín.

Á martraðaskalanum vógu þessir tónleikar þungt en tókst þó ekki að sökkva atburði sem átti sér nokkru áður.
Stuttu fyrir tónleikana fór ég á klósettið. Þegar ég var í þann mund að munda klósettpappírinn tók ég eftir að önnur hliðin á risastórri iðnaðarklósettrúllunni var alsett litlum rauðbrúnum slettum. Nánari skoðun leiddi í ljós að þetta voru blóðblettir af mismunandi stærðum. Skyndilega þyrmdi yfir mig og flökkusagan um sprautudópista sem þurrka nálarnar í einmitt svona rúllur laust í höfuð mér sem vítiselding. Lifrarbólgan seytlaði um æðar mér, alnæmið fór sem eldur í sinu. Skelfd arkaði ég út af klósettinu og stóð sjálfa mig að því að gruna veiklulegan mann sem hímdi á stól í eyðilegu baksviðsherberginu. Hann sagðist þekkja Daniel Johnston. ,, Whorever" hugsaði ég ,, ..bráðum mun ég deyja."

2 comments:

  1. eins gott að þú forðist svona hættulegan klósettpappír...ég á nefnilega ekki vara-systur. hehe...

    ReplyDelete