Thursday, April 29, 2010

Bibbur

Ég er að spögúlera hvort ekki gæti verið gaman að skrásetja hérna allskonar skemmtilega bjánalega hluti sem ég heyri eða les. Svona Bibbufrasa. Ég skrái samviskusamlega hjá mér skemmtilegheit sem koma oftar en ekki frá nemendum mínum, en vandamálið er að ég krota þetta á miða og týni þeim svo. Þegar mig langar svo að slá um mig með skemmtilegum sögum er ég iðulega búin að gleyma öllu og er er þar af leiðandi ekkert fyndin. Ef ég skrái hinsvegar hlutina á sama stað, sem gæti t.d. verið hér inni, verður vandinn úr sögunni. Þá get ég bara lesið síðuna yfir áður en ég fer á mannamót og rifjað þannig upp bestu frasana. Í framhaldi af því mun ég slá um mig með hnyttnum frásögnum af bjánalegum setningum og ruglingslegum orðatiltækjum og get þannig talið fólki trú um að ég sé í raun fyndin.
Til þess að koma söfnuninni af stað kemur hér frasi dagsins sem ég fann krotaðan í horn á blaði eftir að ég sjálf ákvað að muna hann...og ég var alveg að fara að henda blaðinu og týna þar af leiðandi setningunni um aldir alda, þegar í höfði mér kviknaði ljós. Halda þessu saman á einum stað kona!
Nema hvað... Þessi setning er úr umfjöllun um kvikmyndina Forrest Gump sem er mjög góð... ,,Hann getur hlaupið eins og fuglinn fljúgandi."
Góður?
Kveður
Maja

Wednesday, April 28, 2010

Twilight zone.

Titillinn er kannski ekki alveg nákvæmur en ég lenti í dálítið sniðugu í dag. Ég átti að fljúga til Bandaríkjanna um fimmleytið en þar sem Eyjafjallayoghurt er enn að spúa samgöngulömunarveiki út í loftið þá var fluginu aflýst.

Í kjölfarið á þessu gerðist tvennt. Í fyrsta lagi græddi ég óvæntan tíma. Ég varð Happaþrennuglöð (nýyrði) og nýtti tímann að mínu mati mjög vel. Ég eyddi deginum makindalega fyrir framan Simpsons og gúffaði í mig nammi þangað til að mér leið illa. Svo lagði ég mig á sófanum og vaknaði með sykurskán á tönnunum, væga ógleðitilfinningu og allt var eins og best var á kosið.

Seinna um kvöldið fór ég til systur minnar og plantaði mér með henni í sófa og við horfðum á tvo þætti úr seríunni Bræður og systur eða Boring Sisters eins og þátturinn heitir núna.
Flestir sem heyra af þessu áhugamáli okkar ranghvolfa hneyksluðu litlu augunum sínum og segjast ekki trúa því að einhver nenni að horfa á þessa þætti. Þá verð ég ennþá sáttari og mér líður eins og við eigum þættina meira útaf fyrir okkur. Eins og að eiga leynistað eða leynibekk.

En ég var nú víst að tala um eitthvað kjölfar og var líklega komin að lið númer tvö á kjölfarinu. (Slímug ræsking.)
Á Leifsstöð var áhugavert um að litast. Flugstöðin leit út eins og flóttamannabúðir fyrir ríka vesturlandabúa. Í hverju einasta horni var manneskja. Fólk sat ýmist á stólum eða gólfinu, sumir voru jafnvel búnir að næla sér í hjólastóla. (Ég get sko ekki setið í hjólastól því þá held ég að ég sé að leggja álög á mænuna mína.)
Hluti af mannmergðinni hafði svo raðað sér upp í óskipulagðar raðir sem stækkuðu svo eða minnkuðu eftir aðstæðum. Stækkuðu þegar rúturnar komu og minnkuðu þegar áhugalaus rödd í kallkerfinu tilkynnti hvaða flugum hefði verið aflýst. Ef ég hugsa um það þá hefði verið frekar skrýtið ef konan hefði verið hress í kallkerfinu.

Hópar af fólki eru mjög áhugavert fyrirbæri. Í dag var gaman að fylgjast með hvernig fólk tekst á við svona óvissu og bið. Sumir lásu, héngu í tölvu eða prjónuðu. Aðrir stóðu nálægt sjónvörpum og störðu örvæntingafullir á tilkynningar um brottfarir. Ég sá tvær stelpur æfa sig á fiðlur. Hópur tölvuleikjanörda drakk sig blindfullan og hlustaði á Eagles í gettóblaster. Viðstaddir nördar sungu með. Ég heyrði drafandi rödd á næsta borði: ,, Ef ég fæ ekki kassa af bjór þá drep ég einhvern." Maður með flugmannasólgleraugu og stórt jarðaberjaljóst hár átti röddina. Hann var kunnuglegur. Ég mundi síðan eftir því að hafa hitt hann í finnska sendiráðinu þegar ég var unglingur. Hann var í finnskri pönkhljómsveit í kringum 1995. Ég tók þá skynsamlegu ákvörðun labba ekki upp að kauða og kynna mig og rifja upp fimmtán ára gamla minningu sem að öllum líkindum ætti sér bara samastað í mínu höfði. Ööruggar unglingsstelpur eru líklega síður eftirminnilegri en rauðhærðir menn í finnskum pönkhljómsveitum.
..og svo er miðaldra fólk með áfengisvandamál frekar slappt kombó.. ja svona þegar samræðulist er annars vegar.


Það sem kom mér mest á óvart var hversu fáir voru pirraðir og/eða reiðir. Fólk var bara að spjalla eða rápa eða dunda eða dotta. Í eina skiptið sem einhver sýndi einhver viðbrögð var þegar fólk sussaði á nördana þegar þeir byrjuðu að syngja á meðan konan í kerfinu las aflýsingarnar. Ég veit ekki með alla en mér fannst það bráðfyndið.

Stuttu síðar tilkynnir kallkonan að okkar flugi hafi verið aflýst. Mér leið eins og okkur hefði verið hafnað.
Snúlli Snær reyndi að redda málunum með því að athuga með vél til Seattle en stuttu síðar kom tilkynning um að Seattleflugið væri búið spil.
Kannski er eitthvað athugavert við mig en ég varð ekkert svekkt, fyrir utan ellefu sekúndna höfnunartilfinninguna en hún er á speed dial hjá mér þannig að það er ekki alveg að marka. Hvorki varð ég reið né stressuð. Ég fékk enga löngun til að hella mér yfir einhvern eða spyrja einhvern út í eitthvað. Náttúruhamfarir og samgönguraskanir virðast hafa róandi áhrif á mig.

Ég sá einmana barðastóran sumarhatt ofan á haug af ferðatöskum og fagnaði því hljóðlega að vera ekki föst á flugvelli í Hawaiiskyrtu, gallastuttbuxum og með sólgleraugu sem ganga bara upp í sólarlöndum.


Ég veit að þetta er kannski ekki sniðugt fyrir þá sem þurfa að vera hjá veikum fjölskyldumeðlimum eða vinum eða þurfa að fara í jarðafarir eða þannig háttar en fyrir fólk eins og mig þá fannst mér þetta bara mjög spennandi ástand á Keflavíkurflugvelli.

Ég þarf reyndar að vera komin til Kanada fyrir föstudaginn en þarfið mitt er öðruvísi þarf heldur en þörfin sem ég nefndi hér á undan. Þörfin mín byggist ekki á neyð eða fjölskyldumálum. Svo hef ég mikla trú á að allt muni fara einhvern veginn og ef ekkert er hægt að aðhafast þá er það bara ekki hægt.
Það er furðulegt að manneskja sem gerir iðulega úlfalda úr mýflugum, er fullkomlega róleg þegar kemur að úlföldunum sjálfum. Einu sinni heyrði ég konu segja að maður hrasi ekki um fjöllin heldur rúnstykkin. Ég held að ég hafi skilið hana rétt. Eða þá að hún hafi verið geðveik og unnið í bakaríi.

Kær kveðja,

Sigga Boston

Ps. Póstaði kommenti, í þetta skipti held ég að það hafi tekist.

Sunday, April 25, 2010

Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð...

Ég væri stundum alveg til í að prófa að vera svolítið klikk. Svona eins og sumir sem fá paranojuköst og svona...hint hint... Eitthvað skiptust þó klikkkastagenin ójafnt á milli okkar systranna því mér er lífsins ómögulegt að verða ofsóknarbrjáluð. Sama hvað ég reyni.
Mig grunar þó að það sé jafn klikkað að vera haldin krónískri og stóískri ró. Það er erfitt að verða aldrei stressaður öðruvísi en í öxlunum.
Ég hef reyndar aldrei lent í því að þurfa að hlusta á sjálfa mig syngja á almannafæri, nema jú reyndar þegar ég söng á sviði á sautjánda júní lög úr kabarett Hólabrekkuskóla ásamt hljóðfæraleikurum úr Árbæjarskóla. Það lag var þó aldrei spilað aftur. Sem betur fer. Ég er ennþá fegin að hafa sloppið við að taka atriðið á sundbolnum eins og það var upphaflega.
Þegar ég lít til baka sé ég hvað það var ógeðslega klikkað. Að vera fimmtán ára standandi uppi á borði í andlitslituðum sundbol að syngja illa saminn texta við leiðinlegt lag. Hver leikstýrði þessum ósköpum eiginlega?! Æi jú...alveg rétt... Sumir ,,leikstjórar" eru greinilega meira ehemm en aðrir.
Mér tekst samt ómögulega að fá sár á sálina eftir þetta. Það koma nokkrir möguleikar til greina. 1. Ég er ekki með sál. 2. Sálin mín er hjúpuð sprengiheldu títaníum plexígleri. 3. Ég er haldin heppilega selektívu minnistapi á háu stigi. 4. Ég er siðblindur tilfinningalaus geðsjúklingur. 5. Wurrewur...
Stundum væri ég samt til í að fara á andstæðuna við reiðistjórnunarnámskeið. Svona til að læra að verða reið og svolítið paranojd í leiðinni. Það hljómar einhvernvegin miklu skemmtilegra.
Blés
Maja

Taugakippir.

Ofsóknaræði mitt náði nýjum hæðum á laugardaginn. Atvikið átti sér stað þegar ég skrapp á útskriftarsýningu LHÍ.

Í miðju Hafnarhúsinu, þar sem sýningin er til húsa,geng ég inn í sal sem er undirlagður af risastórri innsetningu. Fyrir þá sem hafa engan stórkostlegan áhuga á list hef ég tvennt að segja: 1. Innsetning er íslenska þýðingin á orðinu Installation og á ekki við um innsetningu þá er á sér stað milli tveggja einstaklinga af sama eða sittvoru kyni. 2. Þessi bloggfærsla er í aðalatriðum ekki um list heldur minniháttar geðveilu þannig að bíddu bara róleg/rólegur.
En já að innsetningunni. Útskriftarnemarnir níu sem ákváðu að vinna saman að lokaverkefninu, höfðu endurskapað barinn Bakkus inni í salnum og í kringum hann byggt ýmiskonar dótarí. Verkið heitir Bakkus Postulanna og er m.a. vísun í verk Klink og Bank hópsins á Frieze sýningunni í Englandi.

Á Frieze tók mannskapurinn sig til og endurbyggði Sirkus og gerði sitt besta við að endurskapa stemmninguna þar, við rífandi fögnuð erlendra sýningargesta og listheimsins í heild sinni. Kannski voru blöðin eitthvað að ýkja en já, þetta ku hafa verið mjög vel heppnað. Annars eru ,, Íslendingar meika það í útlöndum" fréttir oftast stórkostlega ýktar. Ef einhver hefur áhuga á því að sannreyna þetta þá er ágætis ráð að spyrja útlendinga út í Vesturport leikhópinn eða einhverja íslenska hljómsveit sem heitir ekki MÚM eða Sigurrós.

Nú já og nema hvað. Áður en ég fór á LHÍ sýninguna hafði ég frétt af Bakkus listaverkinu og skildist á viðmælendum mínum að þetta væri eitt allsherjar grín og háð. Með það í huga rölti ég inn í salinn. Í hátölurum ómaði kunnuglegt lag. Þar sem ég er frekar vandræðaleg manneskja þá á ég erfitt með að hlusta á sjálfa mig syngja. Ég gerði mitt besta til að láta lagið sem vind um eyru þjóta og tók til við að góna á það sem fyrir augu bar. Tæpum þremur mínútum síðar er lagið loks á enda og hugur minn fyllist af einu stóru Hjúkketi.
En hvað tekur svo við krakkar mínir? Jú, næsta lag á plötunni tekur við. ,,Whadd?" verður mér að orði og ég tek til við að forða mér. Hægt og rólega rennur upp fyrir mér að platan okkar er á repeat. Heilinn minn gerði nokkra sjálfstæða útreikninga og dróg að lokum þá ályktun að lögin okkar væru á einhvern hátt hluti af gríninu og að ég væri asnaleg og fólki þætti ég almennt frekar misheppnuð og hallærisleg og að ég væri fyrst að taka eftir því núna á svona stórkostlegan hátt. ,,ÓNEI!" hugsaði ég og minntist martraða þar sem maður er allsber fyrir framan annað fólk

Þegar mesta áfallið hafði liðið hjá fór ég að reyna að stappa í mig stálinu. ,, Fólk verður nú að hafa húmor fyrir sjálfum sér.", ,, Kannski ertu að ímynda þér að þetta sé verra en það er í raun og veru?", ,, Þú ættir nú bara að vera að fást við eitthvað annað ef þú ert svona viðkvæm sál."
Smám saman tókst mér að taka mig saman í andlitinu og ákvað að fara aftur inn í salinn og skoða aðeins betur. Við nánari athugun sá ég að ég þekkti nánast alla sem að verkinu stóðu (mér láðist að taka eftir hverjir höfðu gert verkið sökum uppnámsins). Ekki nóg með það þá eru þau með indælla fólki og ég efast um að þau hafi gert nokkuð hættulegra en að skella geisladisk í tækið til að hafa eitthvað til þess að hlusta á á barnum sem þau höfðu smíðað.

Skömmustuleg yfir eigin hugsýki, vappaði ég út af safninu og tók eftir því að ég var skyndilega að drepast úr þreytu. Þegar ég verð fyrir svona sjálfsköpuðum andlegum eldingum þá fer allt á fullt og taugakerfið neyðist til þess að hvíla sig eftir á.

Það eru engin takmörk fyrir því hvað ég get orðið ofsóknaróð og það líður varla hjá sú vika sem ég fæ ekki minniháttar áfall og/eða paranojukast. Þar sem að mín köst eru innan landamæra eðlilegrar geðheilsu (guð hjálpi alvöru geðveiku fólki) er fátt hægt að gera en að reyna að gera sitt besta og vefja meiri klósettpappír utan um þunna klósettpappírskrápinn sem umlykur viðkvæma litla sál.

Ég er bara fegin að hafa ekki gert eitthvað fáránlegt eins og að rífa diskinn úr tækinu og bryðja hann á meðan ég öskraði ,, HJÁLP! VÉR VITUM EKKI HVÍ VÉR GJÖRUM SLÍKT!" á meðan brotin frussuðust út um munninn á mér eða eitthvað þaðan af geðveikara. Fyrir nokkrum árum hefði ég gert eitthvað vanhugsað og séð svo eftir því þegar ég kæmist að því að allt var ímyndun.

Klikkun eldist frekar illa, það er eitthvað minna heillandi við að vera 31 árs og nötts og 21 árs og nötts. Ég hef sett mér það takmark að verða 41 árs og afar lítið nötts. Kannski bara alveg eðlileg.

Næst mun ég fjalla um gamalt kast þar sem úlfar og brjóstahaldarar koma við sögu. Góðar stundir og góða geðheilsu.

Friday, April 23, 2010

Dagur eitt

Þokkalega er ég að spýta í lófana núna eða frussa á fingurgómana.

Jebb

Hér séum við...