Thursday, April 29, 2010

Bibbur

Ég er að spögúlera hvort ekki gæti verið gaman að skrásetja hérna allskonar skemmtilega bjánalega hluti sem ég heyri eða les. Svona Bibbufrasa. Ég skrái samviskusamlega hjá mér skemmtilegheit sem koma oftar en ekki frá nemendum mínum, en vandamálið er að ég krota þetta á miða og týni þeim svo. Þegar mig langar svo að slá um mig með skemmtilegum sögum er ég iðulega búin að gleyma öllu og er er þar af leiðandi ekkert fyndin. Ef ég skrái hinsvegar hlutina á sama stað, sem gæti t.d. verið hér inni, verður vandinn úr sögunni. Þá get ég bara lesið síðuna yfir áður en ég fer á mannamót og rifjað þannig upp bestu frasana. Í framhaldi af því mun ég slá um mig með hnyttnum frásögnum af bjánalegum setningum og ruglingslegum orðatiltækjum og get þannig talið fólki trú um að ég sé í raun fyndin.
Til þess að koma söfnuninni af stað kemur hér frasi dagsins sem ég fann krotaðan í horn á blaði eftir að ég sjálf ákvað að muna hann...og ég var alveg að fara að henda blaðinu og týna þar af leiðandi setningunni um aldir alda, þegar í höfði mér kviknaði ljós. Halda þessu saman á einum stað kona!
Nema hvað... Þessi setning er úr umfjöllun um kvikmyndina Forrest Gump sem er mjög góð... ,,Hann getur hlaupið eins og fuglinn fljúgandi."
Góður?
Kveður
Maja

No comments:

Post a Comment