Sunday, August 29, 2010

Berja mó.

Ókey krakkar, núna ætla ég að hætta að lesa annarra manna matarblogg og andskotast til að elda eða blogga sjálf.

Eftir farandi er frásögn af heiðarlegri tilraun til þess að gera eitthvað annað en að lesa annarra manna blogg.

Sunnudeginum eyddi ég í félagsskap systur minnar, móður og systurdóttur. Við fórum út fyrir bæinn í langþráðan berjamó. Síðast þegar ég reyndi að fara í berjamó endaði ég í Kringlubíó sælla minninga, allt um það á gamla blogginu mínu. Eins og athugulir vegfarendur taka eftir, er ekkert skylt með Berjamó og Kringlubíó nema það að þau ríma.

Í dag helltist berjamanían yfir mig og þrátt fyrir að vera niðurrignd og í hlandspreng, gat ég bara alls ekki hætt að tína. Blaut með buxurnar á hælunum skreið ég aftur í bílinn.

Mánudagskvöldið fór svo í að búa til sultu. Mun auðveldara en ég hélt. Sérstaklega með Dansukker sykrinum sem er með pektíni í. Þá er þetta bara grín.

Thursday, August 26, 2010

Bloggaðu María

Þar sem ég stóð áðan og var að ljúka síðustu kennslustund dagsins fann ég hvar síminn titraði í vasa mínum. Þrisvar. Þrisvar þýðir sms. Oft og lengi þýðir símtal. Here comes the sun með Bítlunum þýðir að ég hef gleymt að slökkva á hljóðinu áður en ég byrjaði að kenna og að ég sé kærulaus lúði sem ætti sennilega ekki að starfa í neinu sem krefst ábyrgðar og þess að vera góð fyrirmynd, svosem kennslu.
Þegar nemendurnir höfðu lokið brottför sinni úr stofunni laumaði ég höndinni ofaní vasann, læddi símanum upp og opnaði hann. Loading stóð á skjánum. Eitthvað glotti ég út í annað þar sem ég las skilaboðin sem mér höfðu borist: ,,Thad eru 11 dagar sidan thu bloggadir sidast. Bara svona ad nefna thad." Ekki þurfti meira en þessi stuttu skilaboð til að lauma óróa inn í vitund mína. Eins og ormar sem éta mann upp að innan dreifði óróinn sér í allar mínar hugsanir, bæði líkamlegar og andlegar. Með líkamlegum hugsunum veit ég ekki alveg hvað ég á við en mig grunar að það hljómi djúpt og gáfulegt og því ákvað ég að hafa það með í textanum.
Ég reyndi eins og ég gat að útiloka áðurnefndar hugsanir. Að kæfa öndina. Að bæla taugarnar. Ég brosti þegar ég var sótt á vinnustað og keyrð heim. En það var grunnt á brosinu enda engin innistæða fyrir því önnur en angist, taugaspenna og samviskubit.
Er heim kom tók ekkert betra við. Ég var hvergi í rónni, hélt athyglinni engan veginn og mig var farið að klæja. Klægja. Nei, klæja.
Ég reyndi hvað ég gat en ekkert dugði. Líðanin versnaði með hverri mínútu sem leið og að lokum varð ég undan að láta. Eins og fíkill sem skríður eftir gólfinu í eigin slími með fjólubláa húð, æðarnar þandar, svitaperlur á enninu og beiska froðu í munnvikjunum til þess að krækja í sprautuna sem inniheldur banvænan skammtinn hlammaði ég mér á skrifstofustólinn fyrir framan tölvuna og skráði mig inn. Ég geri mér fulla grein fyrir því hversu óaðgengileg ofangreind samlíking virðist óvönum en ég treysti því að þeir sem skilið geta skilja muni. Líðanin er svo hræðileg. Það er engin leið út. Enginn vegur heim. Ekkert hægt að gera nema láta eftir vanlíðaninni. Bregðast við skilaboðum líkamans, hugans og essemmesssins. BLOGGAÐU.... BLOGGAÐU..... BLOGGAÐUUUUU!!!.....
Ég er aumingi.

Vakna Dísa vakna nú, veltu þér úr fleti.

Af ástæðum mér ókunnum fer fátt meira í taugarnar á mér heldur en þegar fólk hringir og spyr: ,, Var ég að vekja þig?" Hvort sem viðkomandi var að vekja mig eða ekki þá svara ég spurningunni alltaf neitandi. Lygi? Nei, ósjálfrátt viðbragð öllu heldur.

Viðkvæmni mín fyrir þessu á sér langa sögu. Foreldrar mínir eru árrisulir göngugarpar. Á barnsaldri var ég send í sveit og á hverjum morgni kom ömmusystir mín og vakti mig og taldi upp allt sem hún hafði náð að gera áður en að ég fór á fætur. Þess má geta að oftast þegar ég leit á klukkuna var hún varla orðin níu. Þó svo að ég væri bara tíu ára þá varð mér afar gramt í geði við þessa morgunupptalningu.


Nú á dögum ræð ég vinnutíma mínum og er oftast að vinna fyrir sjálfa mig eða tek að mér verkefni fyrir aðra og vinn þau á vinnustofunni minni. Hugmyndir koma og fara og ég er get ómögulega einbeitt mér fyrir klukkan tíu á morgnana. Ég er því yfirleitt mætt um hádegisbilið á vinnustofuna og vinn svo fram yfir kvöldmat.

Fyrir sex árum síðan vann ég á dæmigerðum vinnustað og komst að því að samstarfsfólk mitt hafði það fyrir sið að spyrja mig engra krefjandi spurninga fyrir hádegi. Reyndar gerðu þau sitt besta til þess að sleppa því að tala við mig á morgnana. Þess má geta að ég átti að mæta hálf níu í vinnuna og var yfirleitt mætt fyrr. Til að hressa mig við þá gekk ég alla morgna í vinnuna, hvernig sem viðraði. Gangan tók um það bil tuttugu mínútur. Sökum morgunheimsku og einbeitingarskorts þurfti ég að vakna klukkan sjö til þess að mæta ekki ber að neðan með maskara á efrivörinni og ristað brauð í augnhárunum. Þrátt fyrir þessa morgungöngu og mikið kaffiþamb gat ég bara alls ekki myndað setningar eða gert nokkurn skapaðan hlut. Jú, ég gat nú hellt upp á kaffi og starað á kaffivélina þangað til kaffið var tilbúið.

Ég vil taka það fram að ég er ekki morgunfúl. Þvert á móti þá þjáist ég af miklum morgungalsa. Munnræpa og óstöðvandi flissköst gera vart við sig. Ég get bara ekki haldið uppi samræðum af viti og það er slæmt þegar maður vinnur t.d. í kringum börn og unglinga og þarf ef til vill að ræða við foreldra fyrir hádegi. Kennarastarfið væri til dæmis mjög óhentugt í mínu tilviki.
Að mér hafi tekist að klára stúdentinn og BA námið í dagskóla er í rauninni kraftaverk.

Seinni hluti erindisins í laginu um hana Dísu er: Vakna segi ég vakna þú, vond er þessi leti. Að sofa fram að hádegi er oftast tengt við að vera latur. Þetta er mögulega ástæðan fyrir því að ég er svona viðkvæm fyrir þessu.

Fólk hefur gaman af því að tönnlast á alþýðuvísindunum um A og B manneskjur.
,, Ég er bara svona A manneskja." segir það. Alltaf þegar ég heyri þetta þá myglar hluti af sálu minni. Ef ég leyfi mér að vera smámunasöm og nördaleg þá er svokallað B fólk vakandi fyrr heldur en A fólk. A fólk fer að sofa fyrir miðnætti en B fólk eftir miðnætti. Þar af leiðandi er B manneskjan vakandi á undan A manneskjunni á degi hverjum. Jebb, troddu þessu í pípuna þína og reyktu það.


Til gamans og pyntinga læt ég fylgja með Dísukvæði:

Vakna, Dísa, vakna nú!
Veltu þér úr fleti.
Vakna, segi’ ég, vakna þú!
vond er þessi leti.

Björt í suðri sólin skín,
sveifla piltar ljáum.
Hátt og ótt í eggjum hvín,
er þeir granda stráum.

Tjú-tjú-tjú. Tjú-tjú-tjú-tjú.
Tjú-tjú-tjú. Tjú-tjú-tjú-tjú.
La-la-la-la. La-la-la. La-la-la-la.
La-la. La-la-la-la. La-la-la. LA LA LA.

Dísa, þetta draumaslór
dámar mér nú ekki.
Ljáin orðin alltof stór;
ætti’ að nást í flekki.

Þegar slíkur þurrkur er,
þyrfti fólk að vaka.
Fram úr stelpa, flýttu þér!
Farðu strax að raka.

Ra-ka, ra-ka, raka. Ra-ka, ra-ka, ra-ka, ra-ka.
Ra-ka, ra-ka, raka. Ra-ka, ra-ka, ra-ka, ra-ka.
La-la-la-la. La-la-la. La-la-la-la. La-la.
La-la-la-la. La-la-la. LA LA LA.

Dísa var á dansi’ í nótt
Dísa þarf að lúra.
Dísu er svo dúrarótt.
Dísa vill því kúra.

Átök mörg og orðin reið,
ekkert henni bifar.
Sólin gengur sína leið.
Sífellt klukkan tifar.

Tikk-tikk-tikk. Tikk-tikk-tikk-tikk.
Tikk-tikk-tikk. Tikk-tikk-tikk-tikk.
La-la-la-la. La-la-la. La-la-la-la. La-la.
La-la-la-la. La-la-la. LA LA LA.

Sjitt, þetta er örugglega sungið af vöðvastæltum fangavörðum í slímugum kjallara í Hegningarhúsinu á meðan þeir renna kylfunum upp við rimlana. Óp fanganna berast niður Skólavörðustíginn en almennir borgara halda að þetta sé bara ómur af listagjörningi frá Götuleikhúsinu.

Wednesday, August 25, 2010

Snörl.

Ímyndaðu þér snýtibréf, tómt frauðplastbox með súpuleifum, lúnar og þröngar náttbuxur með götum á rassinum, þvala fingur, stjörf augu af sjónvarpsþáttaglápi og heita fartölvu í súrri kjöltu. Ef ég væri einhleyp og fimmtug þá væri ég búin að kál... djók.

Á sama tíma í fyrra var ég líka veik. Nákvæmlega eins veik sem segir mér að þetta eitthvað haustinu sem nálgast... verð.. að.. standa... upp..úr ..sófanum...og fara...út í ...sjoppu.... það...eina...sem...bjargar mér..er.....nammi.

Tuesday, August 24, 2010

Fleiri vandamál

Eða þetta?

Vandamál

Hver kannast ekki við þetta vandamál?

Hundakúnstir

Orðið í dag er hundakúnstir. Ég ætla ekki að tjá mig mikið um innihald orðsins en eitt vil ég segja: Fólk er almennt ekki nógu og duglegt að nota orðið hundakúnstir.

Sunday, August 22, 2010

Handbók Kúkalabbans

Nú ber svo við að ég er stödd á flugvelli í Vín. Flugvalladvöl er orðin að sérgrein hjá mér. Einu sinni leiddist mér alltaf á flugvöllum en núna gerist það afar sjaldan. Líklega er það af því að eftir því sem ég eldist, hef ég alltaf meira og meira gaman af því að glápa á fólk. Um daginn varð ég svo fyrir því að tvær þýskar stúlkur voru að glápa á mig. Þær mældu mig út, pískruðu og svo flissuðu þær. Þetta þótti mér mjög óþægilegt svo ég starði illilega á þær þangað til að önnur þeirra roðnaði og hin sem var rauðhærð, fjólublánaði. Fyrst fylltist ég af réttlátri reiði hins smáða en svo mundi ég eftir þeim ótalmörgu stundum þar sem ég hef glápt á fólk, fundið gælunöfn handa þeim og gert grín að þeim við vini mína.

Eini munurinn mér og stúlkunum, sem ganga hér eftir undir nafninu Tæfurnar, er sá að ég geri þetta ekki fyrir framan fólk heldur aftan það. Frekar þunn réttlæting en hvað um það.
Ég er mjög sennilega búin með inneignina mína hjá Karma-Shcadenfreude-stofnuninni og átti þetta inni. Það er ekki þar með sagt að ég hafi ekki notið þeirrar unaðsstundar þegar stelpuandskotarnir (Tæfurnar) stiknuðu í eigin vítissvita. Besta hefndin er nefnilega samviskubitið sem aðrir búa til í höfðinu á sér. Ef maður skammar fólk þá líður þeim eins og þau séu búin að taka út refsinguna sem þau halda, innst inni, að þau eigi skilið. Allt um þetta í Handbók Kúkalabbans.

Sunday, August 15, 2010

Nú nú... mín bara á fullu í blogginu? Ég sem hélt að við værum samtaka í letinni.
Hvernig er það annars...hefur einhver einhverntíman lesið þennan skratta sem er ekki annað hvort systir mín eða systir þín?
Nú eða dóttir mömmu og pabba?

Annars er ég bara á fullu að skrifa viðskiptaáætlanir, námsáætlanir, lögfræðimeistaraverk og minningargreinar. Nóg að gera í puttunum hjá minni skal ég segja þér. Og svo rignir í ofanálag.

Talandi um drauma.... ég var að taka gamla svarta skissubók sem þú gafst mér einhverntíman í gagnið aftur. Núna er hún draumaskráningabók. Mig hefur nefnilega dreymt svo mikið undanfarið. Eða kannski er ég bara farin að vakna við vekjaraklukku aftur sem sker draumana mína í tvennt og gerir það að verkum að ég man þá því ég vakna í miðjunni á þeim. Eða eitthvað svoleiðis.
Ég er amk búin að skrifa í fjóra eða fimm daga og hver er svo niðurstaðan? Tja.... að sé rosalega ruglingsleg týpa með nostalgíu á háu stigi. Eða eitthvað svoleiðis.

....sagði hún og snéri sér aftur að viðskiptaáætluninni sem þarf að vera tilbúin í fyrramálið....

Wednesday, August 11, 2010

Á einhver draumráðningabókina?

Rétt upp hönd sem er duglegri að blogga en systir sín. Ich Ich Ich! Núna er ég komin í keppnisskap en hef ekkert að segja. Örþrifaráð dagsins er því að grípa til undirmeðvitundarinnar. Samkvæmt aðfararnótt þriðjudags er undirmeðvitundin mín í algjöru fokki. Mig dreymdi að Svala Björgvins væri að mála mig í framan. Hún byrjaði síðan að meiða mig í varirnar og toga fast í augnhárin á mér til að gera mig fallegri. Fyrir utan gluggann stóð eltihrellir og starði á mig en í draumnum var hann írskur maður og við hlið hans var hoppandi Leprechaun. Þeir voru báðir í grænum jakkafötum og með rautt krullað hár. Já ekkert meira um það að segja svo sem.