Thursday, August 26, 2010

Bloggaðu María

Þar sem ég stóð áðan og var að ljúka síðustu kennslustund dagsins fann ég hvar síminn titraði í vasa mínum. Þrisvar. Þrisvar þýðir sms. Oft og lengi þýðir símtal. Here comes the sun með Bítlunum þýðir að ég hef gleymt að slökkva á hljóðinu áður en ég byrjaði að kenna og að ég sé kærulaus lúði sem ætti sennilega ekki að starfa í neinu sem krefst ábyrgðar og þess að vera góð fyrirmynd, svosem kennslu.
Þegar nemendurnir höfðu lokið brottför sinni úr stofunni laumaði ég höndinni ofaní vasann, læddi símanum upp og opnaði hann. Loading stóð á skjánum. Eitthvað glotti ég út í annað þar sem ég las skilaboðin sem mér höfðu borist: ,,Thad eru 11 dagar sidan thu bloggadir sidast. Bara svona ad nefna thad." Ekki þurfti meira en þessi stuttu skilaboð til að lauma óróa inn í vitund mína. Eins og ormar sem éta mann upp að innan dreifði óróinn sér í allar mínar hugsanir, bæði líkamlegar og andlegar. Með líkamlegum hugsunum veit ég ekki alveg hvað ég á við en mig grunar að það hljómi djúpt og gáfulegt og því ákvað ég að hafa það með í textanum.
Ég reyndi eins og ég gat að útiloka áðurnefndar hugsanir. Að kæfa öndina. Að bæla taugarnar. Ég brosti þegar ég var sótt á vinnustað og keyrð heim. En það var grunnt á brosinu enda engin innistæða fyrir því önnur en angist, taugaspenna og samviskubit.
Er heim kom tók ekkert betra við. Ég var hvergi í rónni, hélt athyglinni engan veginn og mig var farið að klæja. Klægja. Nei, klæja.
Ég reyndi hvað ég gat en ekkert dugði. Líðanin versnaði með hverri mínútu sem leið og að lokum varð ég undan að láta. Eins og fíkill sem skríður eftir gólfinu í eigin slími með fjólubláa húð, æðarnar þandar, svitaperlur á enninu og beiska froðu í munnvikjunum til þess að krækja í sprautuna sem inniheldur banvænan skammtinn hlammaði ég mér á skrifstofustólinn fyrir framan tölvuna og skráði mig inn. Ég geri mér fulla grein fyrir því hversu óaðgengileg ofangreind samlíking virðist óvönum en ég treysti því að þeir sem skilið geta skilja muni. Líðanin er svo hræðileg. Það er engin leið út. Enginn vegur heim. Ekkert hægt að gera nema láta eftir vanlíðaninni. Bregðast við skilaboðum líkamans, hugans og essemmesssins. BLOGGAÐU.... BLOGGAÐU..... BLOGGAÐUUUUU!!!.....
Ég er aumingi.

4 comments:

  1. Ég er svo fegin að þú sért hætt að vera sprautudópisti.

    ReplyDelete
  2. Sorrí að hafa valdið þér angist. Mér finnst bara svo gaman að lesa bloggin þín.

    ReplyDelete
  3. hehehe.... þetta er allt í lagi, angistin er væg og ég fæ líka bjór í staðin hjá þér á eftir. og svo var ég líka að djóka því ég vissi ekkert hvað ég ætti að skrifa. og svo er ég líka hrædd við sprautur.

    ReplyDelete