Sunday, August 22, 2010

Handbók Kúkalabbans

Nú ber svo við að ég er stödd á flugvelli í Vín. Flugvalladvöl er orðin að sérgrein hjá mér. Einu sinni leiddist mér alltaf á flugvöllum en núna gerist það afar sjaldan. Líklega er það af því að eftir því sem ég eldist, hef ég alltaf meira og meira gaman af því að glápa á fólk. Um daginn varð ég svo fyrir því að tvær þýskar stúlkur voru að glápa á mig. Þær mældu mig út, pískruðu og svo flissuðu þær. Þetta þótti mér mjög óþægilegt svo ég starði illilega á þær þangað til að önnur þeirra roðnaði og hin sem var rauðhærð, fjólublánaði. Fyrst fylltist ég af réttlátri reiði hins smáða en svo mundi ég eftir þeim ótalmörgu stundum þar sem ég hef glápt á fólk, fundið gælunöfn handa þeim og gert grín að þeim við vini mína.

Eini munurinn mér og stúlkunum, sem ganga hér eftir undir nafninu Tæfurnar, er sá að ég geri þetta ekki fyrir framan fólk heldur aftan það. Frekar þunn réttlæting en hvað um það.
Ég er mjög sennilega búin með inneignina mína hjá Karma-Shcadenfreude-stofnuninni og átti þetta inni. Það er ekki þar með sagt að ég hafi ekki notið þeirrar unaðsstundar þegar stelpuandskotarnir (Tæfurnar) stiknuðu í eigin vítissvita. Besta hefndin er nefnilega samviskubitið sem aðrir búa til í höfðinu á sér. Ef maður skammar fólk þá líður þeim eins og þau séu búin að taka út refsinguna sem þau halda, innst inni, að þau eigi skilið. Allt um þetta í Handbók Kúkalabbans.

No comments:

Post a Comment