Thursday, August 26, 2010

Vakna Dísa vakna nú, veltu þér úr fleti.

Af ástæðum mér ókunnum fer fátt meira í taugarnar á mér heldur en þegar fólk hringir og spyr: ,, Var ég að vekja þig?" Hvort sem viðkomandi var að vekja mig eða ekki þá svara ég spurningunni alltaf neitandi. Lygi? Nei, ósjálfrátt viðbragð öllu heldur.

Viðkvæmni mín fyrir þessu á sér langa sögu. Foreldrar mínir eru árrisulir göngugarpar. Á barnsaldri var ég send í sveit og á hverjum morgni kom ömmusystir mín og vakti mig og taldi upp allt sem hún hafði náð að gera áður en að ég fór á fætur. Þess má geta að oftast þegar ég leit á klukkuna var hún varla orðin níu. Þó svo að ég væri bara tíu ára þá varð mér afar gramt í geði við þessa morgunupptalningu.


Nú á dögum ræð ég vinnutíma mínum og er oftast að vinna fyrir sjálfa mig eða tek að mér verkefni fyrir aðra og vinn þau á vinnustofunni minni. Hugmyndir koma og fara og ég er get ómögulega einbeitt mér fyrir klukkan tíu á morgnana. Ég er því yfirleitt mætt um hádegisbilið á vinnustofuna og vinn svo fram yfir kvöldmat.

Fyrir sex árum síðan vann ég á dæmigerðum vinnustað og komst að því að samstarfsfólk mitt hafði það fyrir sið að spyrja mig engra krefjandi spurninga fyrir hádegi. Reyndar gerðu þau sitt besta til þess að sleppa því að tala við mig á morgnana. Þess má geta að ég átti að mæta hálf níu í vinnuna og var yfirleitt mætt fyrr. Til að hressa mig við þá gekk ég alla morgna í vinnuna, hvernig sem viðraði. Gangan tók um það bil tuttugu mínútur. Sökum morgunheimsku og einbeitingarskorts þurfti ég að vakna klukkan sjö til þess að mæta ekki ber að neðan með maskara á efrivörinni og ristað brauð í augnhárunum. Þrátt fyrir þessa morgungöngu og mikið kaffiþamb gat ég bara alls ekki myndað setningar eða gert nokkurn skapaðan hlut. Jú, ég gat nú hellt upp á kaffi og starað á kaffivélina þangað til kaffið var tilbúið.

Ég vil taka það fram að ég er ekki morgunfúl. Þvert á móti þá þjáist ég af miklum morgungalsa. Munnræpa og óstöðvandi flissköst gera vart við sig. Ég get bara ekki haldið uppi samræðum af viti og það er slæmt þegar maður vinnur t.d. í kringum börn og unglinga og þarf ef til vill að ræða við foreldra fyrir hádegi. Kennarastarfið væri til dæmis mjög óhentugt í mínu tilviki.
Að mér hafi tekist að klára stúdentinn og BA námið í dagskóla er í rauninni kraftaverk.

Seinni hluti erindisins í laginu um hana Dísu er: Vakna segi ég vakna þú, vond er þessi leti. Að sofa fram að hádegi er oftast tengt við að vera latur. Þetta er mögulega ástæðan fyrir því að ég er svona viðkvæm fyrir þessu.

Fólk hefur gaman af því að tönnlast á alþýðuvísindunum um A og B manneskjur.
,, Ég er bara svona A manneskja." segir það. Alltaf þegar ég heyri þetta þá myglar hluti af sálu minni. Ef ég leyfi mér að vera smámunasöm og nördaleg þá er svokallað B fólk vakandi fyrr heldur en A fólk. A fólk fer að sofa fyrir miðnætti en B fólk eftir miðnætti. Þar af leiðandi er B manneskjan vakandi á undan A manneskjunni á degi hverjum. Jebb, troddu þessu í pípuna þína og reyktu það.


Til gamans og pyntinga læt ég fylgja með Dísukvæði:

Vakna, Dísa, vakna nú!
Veltu þér úr fleti.
Vakna, segi’ ég, vakna þú!
vond er þessi leti.

Björt í suðri sólin skín,
sveifla piltar ljáum.
Hátt og ótt í eggjum hvín,
er þeir granda stráum.

Tjú-tjú-tjú. Tjú-tjú-tjú-tjú.
Tjú-tjú-tjú. Tjú-tjú-tjú-tjú.
La-la-la-la. La-la-la. La-la-la-la.
La-la. La-la-la-la. La-la-la. LA LA LA.

Dísa, þetta draumaslór
dámar mér nú ekki.
Ljáin orðin alltof stór;
ætti’ að nást í flekki.

Þegar slíkur þurrkur er,
þyrfti fólk að vaka.
Fram úr stelpa, flýttu þér!
Farðu strax að raka.

Ra-ka, ra-ka, raka. Ra-ka, ra-ka, ra-ka, ra-ka.
Ra-ka, ra-ka, raka. Ra-ka, ra-ka, ra-ka, ra-ka.
La-la-la-la. La-la-la. La-la-la-la. La-la.
La-la-la-la. La-la-la. LA LA LA.

Dísa var á dansi’ í nótt
Dísa þarf að lúra.
Dísu er svo dúrarótt.
Dísa vill því kúra.

Átök mörg og orðin reið,
ekkert henni bifar.
Sólin gengur sína leið.
Sífellt klukkan tifar.

Tikk-tikk-tikk. Tikk-tikk-tikk-tikk.
Tikk-tikk-tikk. Tikk-tikk-tikk-tikk.
La-la-la-la. La-la-la. La-la-la-la. La-la.
La-la-la-la. La-la-la. LA LA LA.

Sjitt, þetta er örugglega sungið af vöðvastæltum fangavörðum í slímugum kjallara í Hegningarhúsinu á meðan þeir renna kylfunum upp við rimlana. Óp fanganna berast niður Skólavörðustíginn en almennir borgara halda að þetta sé bara ómur af listagjörningi frá Götuleikhúsinu.

2 comments:

  1. Glahætan að þú kunnir allan textann!!! Og jedúdda hvað ég gat alltaf lamið einhvern þegar mamma valsaði inn til mín syngjandi þetta lag. Í dag dunda ég mér svo við að pynta frumburðinn minn með því á morgnana...muahahaha....... karma

    ReplyDelete
  2. Ég kann að sjálfsögðu ekki allan textann. Mamma kann örugglega bara fyrsta erindið. Ég þjáðist af mikill morgunógleði þegar þetta lag var sungið.

    Ein spurning: Karma hvers?

    ReplyDelete