Wednesday, April 28, 2010

Twilight zone.

Titillinn er kannski ekki alveg nákvæmur en ég lenti í dálítið sniðugu í dag. Ég átti að fljúga til Bandaríkjanna um fimmleytið en þar sem Eyjafjallayoghurt er enn að spúa samgöngulömunarveiki út í loftið þá var fluginu aflýst.

Í kjölfarið á þessu gerðist tvennt. Í fyrsta lagi græddi ég óvæntan tíma. Ég varð Happaþrennuglöð (nýyrði) og nýtti tímann að mínu mati mjög vel. Ég eyddi deginum makindalega fyrir framan Simpsons og gúffaði í mig nammi þangað til að mér leið illa. Svo lagði ég mig á sófanum og vaknaði með sykurskán á tönnunum, væga ógleðitilfinningu og allt var eins og best var á kosið.

Seinna um kvöldið fór ég til systur minnar og plantaði mér með henni í sófa og við horfðum á tvo þætti úr seríunni Bræður og systur eða Boring Sisters eins og þátturinn heitir núna.
Flestir sem heyra af þessu áhugamáli okkar ranghvolfa hneyksluðu litlu augunum sínum og segjast ekki trúa því að einhver nenni að horfa á þessa þætti. Þá verð ég ennþá sáttari og mér líður eins og við eigum þættina meira útaf fyrir okkur. Eins og að eiga leynistað eða leynibekk.

En ég var nú víst að tala um eitthvað kjölfar og var líklega komin að lið númer tvö á kjölfarinu. (Slímug ræsking.)
Á Leifsstöð var áhugavert um að litast. Flugstöðin leit út eins og flóttamannabúðir fyrir ríka vesturlandabúa. Í hverju einasta horni var manneskja. Fólk sat ýmist á stólum eða gólfinu, sumir voru jafnvel búnir að næla sér í hjólastóla. (Ég get sko ekki setið í hjólastól því þá held ég að ég sé að leggja álög á mænuna mína.)
Hluti af mannmergðinni hafði svo raðað sér upp í óskipulagðar raðir sem stækkuðu svo eða minnkuðu eftir aðstæðum. Stækkuðu þegar rúturnar komu og minnkuðu þegar áhugalaus rödd í kallkerfinu tilkynnti hvaða flugum hefði verið aflýst. Ef ég hugsa um það þá hefði verið frekar skrýtið ef konan hefði verið hress í kallkerfinu.

Hópar af fólki eru mjög áhugavert fyrirbæri. Í dag var gaman að fylgjast með hvernig fólk tekst á við svona óvissu og bið. Sumir lásu, héngu í tölvu eða prjónuðu. Aðrir stóðu nálægt sjónvörpum og störðu örvæntingafullir á tilkynningar um brottfarir. Ég sá tvær stelpur æfa sig á fiðlur. Hópur tölvuleikjanörda drakk sig blindfullan og hlustaði á Eagles í gettóblaster. Viðstaddir nördar sungu með. Ég heyrði drafandi rödd á næsta borði: ,, Ef ég fæ ekki kassa af bjór þá drep ég einhvern." Maður með flugmannasólgleraugu og stórt jarðaberjaljóst hár átti röddina. Hann var kunnuglegur. Ég mundi síðan eftir því að hafa hitt hann í finnska sendiráðinu þegar ég var unglingur. Hann var í finnskri pönkhljómsveit í kringum 1995. Ég tók þá skynsamlegu ákvörðun labba ekki upp að kauða og kynna mig og rifja upp fimmtán ára gamla minningu sem að öllum líkindum ætti sér bara samastað í mínu höfði. Ööruggar unglingsstelpur eru líklega síður eftirminnilegri en rauðhærðir menn í finnskum pönkhljómsveitum.
..og svo er miðaldra fólk með áfengisvandamál frekar slappt kombó.. ja svona þegar samræðulist er annars vegar.


Það sem kom mér mest á óvart var hversu fáir voru pirraðir og/eða reiðir. Fólk var bara að spjalla eða rápa eða dunda eða dotta. Í eina skiptið sem einhver sýndi einhver viðbrögð var þegar fólk sussaði á nördana þegar þeir byrjuðu að syngja á meðan konan í kerfinu las aflýsingarnar. Ég veit ekki með alla en mér fannst það bráðfyndið.

Stuttu síðar tilkynnir kallkonan að okkar flugi hafi verið aflýst. Mér leið eins og okkur hefði verið hafnað.
Snúlli Snær reyndi að redda málunum með því að athuga með vél til Seattle en stuttu síðar kom tilkynning um að Seattleflugið væri búið spil.
Kannski er eitthvað athugavert við mig en ég varð ekkert svekkt, fyrir utan ellefu sekúndna höfnunartilfinninguna en hún er á speed dial hjá mér þannig að það er ekki alveg að marka. Hvorki varð ég reið né stressuð. Ég fékk enga löngun til að hella mér yfir einhvern eða spyrja einhvern út í eitthvað. Náttúruhamfarir og samgönguraskanir virðast hafa róandi áhrif á mig.

Ég sá einmana barðastóran sumarhatt ofan á haug af ferðatöskum og fagnaði því hljóðlega að vera ekki föst á flugvelli í Hawaiiskyrtu, gallastuttbuxum og með sólgleraugu sem ganga bara upp í sólarlöndum.


Ég veit að þetta er kannski ekki sniðugt fyrir þá sem þurfa að vera hjá veikum fjölskyldumeðlimum eða vinum eða þurfa að fara í jarðafarir eða þannig háttar en fyrir fólk eins og mig þá fannst mér þetta bara mjög spennandi ástand á Keflavíkurflugvelli.

Ég þarf reyndar að vera komin til Kanada fyrir föstudaginn en þarfið mitt er öðruvísi þarf heldur en þörfin sem ég nefndi hér á undan. Þörfin mín byggist ekki á neyð eða fjölskyldumálum. Svo hef ég mikla trú á að allt muni fara einhvern veginn og ef ekkert er hægt að aðhafast þá er það bara ekki hægt.
Það er furðulegt að manneskja sem gerir iðulega úlfalda úr mýflugum, er fullkomlega róleg þegar kemur að úlföldunum sjálfum. Einu sinni heyrði ég konu segja að maður hrasi ekki um fjöllin heldur rúnstykkin. Ég held að ég hafi skilið hana rétt. Eða þá að hún hafi verið geðveik og unnið í bakaríi.

Kær kveðja,

Sigga Boston

Ps. Póstaði kommenti, í þetta skipti held ég að það hafi tekist.

1 comment:

  1. Ég held líka að það hafi tekist.
    Vonandi hefur konan ekki verið geðveik og unnið í bakaríi, en ég hló samt að möguleikanum.

    ReplyDelete