Sunday, April 25, 2010

Taugakippir.

Ofsóknaræði mitt náði nýjum hæðum á laugardaginn. Atvikið átti sér stað þegar ég skrapp á útskriftarsýningu LHÍ.

Í miðju Hafnarhúsinu, þar sem sýningin er til húsa,geng ég inn í sal sem er undirlagður af risastórri innsetningu. Fyrir þá sem hafa engan stórkostlegan áhuga á list hef ég tvennt að segja: 1. Innsetning er íslenska þýðingin á orðinu Installation og á ekki við um innsetningu þá er á sér stað milli tveggja einstaklinga af sama eða sittvoru kyni. 2. Þessi bloggfærsla er í aðalatriðum ekki um list heldur minniháttar geðveilu þannig að bíddu bara róleg/rólegur.
En já að innsetningunni. Útskriftarnemarnir níu sem ákváðu að vinna saman að lokaverkefninu, höfðu endurskapað barinn Bakkus inni í salnum og í kringum hann byggt ýmiskonar dótarí. Verkið heitir Bakkus Postulanna og er m.a. vísun í verk Klink og Bank hópsins á Frieze sýningunni í Englandi.

Á Frieze tók mannskapurinn sig til og endurbyggði Sirkus og gerði sitt besta við að endurskapa stemmninguna þar, við rífandi fögnuð erlendra sýningargesta og listheimsins í heild sinni. Kannski voru blöðin eitthvað að ýkja en já, þetta ku hafa verið mjög vel heppnað. Annars eru ,, Íslendingar meika það í útlöndum" fréttir oftast stórkostlega ýktar. Ef einhver hefur áhuga á því að sannreyna þetta þá er ágætis ráð að spyrja útlendinga út í Vesturport leikhópinn eða einhverja íslenska hljómsveit sem heitir ekki MÚM eða Sigurrós.

Nú já og nema hvað. Áður en ég fór á LHÍ sýninguna hafði ég frétt af Bakkus listaverkinu og skildist á viðmælendum mínum að þetta væri eitt allsherjar grín og háð. Með það í huga rölti ég inn í salinn. Í hátölurum ómaði kunnuglegt lag. Þar sem ég er frekar vandræðaleg manneskja þá á ég erfitt með að hlusta á sjálfa mig syngja. Ég gerði mitt besta til að láta lagið sem vind um eyru þjóta og tók til við að góna á það sem fyrir augu bar. Tæpum þremur mínútum síðar er lagið loks á enda og hugur minn fyllist af einu stóru Hjúkketi.
En hvað tekur svo við krakkar mínir? Jú, næsta lag á plötunni tekur við. ,,Whadd?" verður mér að orði og ég tek til við að forða mér. Hægt og rólega rennur upp fyrir mér að platan okkar er á repeat. Heilinn minn gerði nokkra sjálfstæða útreikninga og dróg að lokum þá ályktun að lögin okkar væru á einhvern hátt hluti af gríninu og að ég væri asnaleg og fólki þætti ég almennt frekar misheppnuð og hallærisleg og að ég væri fyrst að taka eftir því núna á svona stórkostlegan hátt. ,,ÓNEI!" hugsaði ég og minntist martraða þar sem maður er allsber fyrir framan annað fólk

Þegar mesta áfallið hafði liðið hjá fór ég að reyna að stappa í mig stálinu. ,, Fólk verður nú að hafa húmor fyrir sjálfum sér.", ,, Kannski ertu að ímynda þér að þetta sé verra en það er í raun og veru?", ,, Þú ættir nú bara að vera að fást við eitthvað annað ef þú ert svona viðkvæm sál."
Smám saman tókst mér að taka mig saman í andlitinu og ákvað að fara aftur inn í salinn og skoða aðeins betur. Við nánari athugun sá ég að ég þekkti nánast alla sem að verkinu stóðu (mér láðist að taka eftir hverjir höfðu gert verkið sökum uppnámsins). Ekki nóg með það þá eru þau með indælla fólki og ég efast um að þau hafi gert nokkuð hættulegra en að skella geisladisk í tækið til að hafa eitthvað til þess að hlusta á á barnum sem þau höfðu smíðað.

Skömmustuleg yfir eigin hugsýki, vappaði ég út af safninu og tók eftir því að ég var skyndilega að drepast úr þreytu. Þegar ég verð fyrir svona sjálfsköpuðum andlegum eldingum þá fer allt á fullt og taugakerfið neyðist til þess að hvíla sig eftir á.

Það eru engin takmörk fyrir því hvað ég get orðið ofsóknaróð og það líður varla hjá sú vika sem ég fæ ekki minniháttar áfall og/eða paranojukast. Þar sem að mín köst eru innan landamæra eðlilegrar geðheilsu (guð hjálpi alvöru geðveiku fólki) er fátt hægt að gera en að reyna að gera sitt besta og vefja meiri klósettpappír utan um þunna klósettpappírskrápinn sem umlykur viðkvæma litla sál.

Ég er bara fegin að hafa ekki gert eitthvað fáránlegt eins og að rífa diskinn úr tækinu og bryðja hann á meðan ég öskraði ,, HJÁLP! VÉR VITUM EKKI HVÍ VÉR GJÖRUM SLÍKT!" á meðan brotin frussuðust út um munninn á mér eða eitthvað þaðan af geðveikara. Fyrir nokkrum árum hefði ég gert eitthvað vanhugsað og séð svo eftir því þegar ég kæmist að því að allt var ímyndun.

Klikkun eldist frekar illa, það er eitthvað minna heillandi við að vera 31 árs og nötts og 21 árs og nötts. Ég hef sett mér það takmark að verða 41 árs og afar lítið nötts. Kannski bara alveg eðlileg.

Næst mun ég fjalla um gamalt kast þar sem úlfar og brjóstahaldarar koma við sögu. Góðar stundir og góða geðheilsu.

No comments:

Post a Comment